Þegar embættismenn fara ekki að lögum

Fyrir nokkru fékk ég inn á borð til mín mál einstaklings sem sviptur var ökuréttindum. Hann var tekinn fyrir ölvunarakstur árið 2018 en málinu lauk ekki fyrr en með sektargerð í janúar 2020 vegna tafa málsins í höndum lögreglu. Þegar kom svo að því að viðkomandi ætlaði að sækja um ökuréttindi að nýju er honum tjáð að hann þurfi fyrst að ljúka sérstöku námskeiði hjá Samgöngustofu. Þannig var mál með vexti að 1. janúar 2020 höfðu ný umferðarlög tekið gildi sem gerðu það að skilyrði fyrir því að fá að ökuprófið aftur að setið væri sérstakt námskeið hjá Samgöngustofu, en slíkt var ekki skilyrði eldri laga sem í gildi voru þegar viðkomandi brot átti sér stað.


Hafði umbjóðandi minn samband við lögreglu í júlí 2021 til að fá þessu breytt en lögreglan vísaði honum á Samgöngustofu. Hjá Samgöngustofu var honum svo aftur vísað á lögregluna. Þegar hann leitar á ný til lögreglunnar þá er honum bent á að tala við sýslumann, sýslumaður sagði honum svo enn á ný að hafa samband við lögreglu. Einstaklingurinn var því búinn að fara fram og til baka í kerfinu á milli embætta sem öll virtust vísa hvert á annað. Að vonum ákvað hann að leita til lögmanns.


Eftir formleg bréfaskipti við lögregluna fengust þau svör í gegnum síma, ekki skriflega, að það væri alfarið í höndum Samgöngustofu að taka ákvörðun um það hvort viðkomandi þyrfti að sitja umrætt námskeið eður ei, til þess að fá ökuréttindi á ný.


Formlegt svarbréf barst frá Samgöngustofu þar sem fram kom að ekki væri hægt að jafna umsókn um ný ökuréttindi við sjálf viðurlögin sem sviptingin felur í sér. Jafnframt að óski einstaklingur eftir því að fá ökuréttindi á ný beri að fara eftir þeim lögum sem gilda á þeim tíma sem slík umsókn berst og því ætti umbjóðandi minn að sitja námskeið sem nýju umferðalögin gerðu skilyrði um.


Þessi ákvörðun Samgöngustofu var kærð Innviðaráðuneytis. Vegna tafa á úrslausn málsins hjá ráðuneytinu var svo send kvörtun til Umboðsmanns Alþingis. Ráðuneytið komst svo að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hlutverk Samgöngustofu að kveða á um skilyrði þess að geta öðlast ökurétt að nýju gagnvart þeim sem hafa verið sviptir ökuréttindum og óska eftir að öðlast þau á ný, heldur sýslumanns eða eftir atvikum lögreglustjóra. Ráðuneytið tók einnig fram að samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins lægi fyrir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi breytt lagalegri túlkun sinni á því hvort einstaklingar sem sviptir voru ökuskírteini í gildistíð eldri umferðarlaga þurfi að undirgangast námskeið hjá Samgöngustofu samkvæmt 3. mgr. 63. gr. umferðarlaga. Er nú þeim sem hafa verið sviptir í gildistíð eldri laga ekki gert að sækja sérstakt námskeið líkt og áður var krafist.


Líkt og áður hefur verið rakið þá hefur ferlið frá því að umbjóðandi minn reyndi fyrst sjálfur að fá svör frá lögreglunni júlí 2021 og allt fram til júlí ári síðar verið langt og strangt. Hafði umbjóðandi minn áður leitað aðstoðar vegna málsins hjá lögreglu og sýslumanni en án árangurs. Það er svo ekki fyrr en að málið er komið til ráðuneytisins að í ljós kemur að hann þurfti ekki að sitja umrætt námskeið hjá Samgöngustofu, eins og hann hafði sjálfur alltaf haldið fram. Það virðist því hafa verið geðþóttaákvörðun embættismanna að setja honum þá kröfu að sitja umrætt námskeið án skýrar lagaheimlidir um slíkt. Það sem er svo einnig mjög alvarlegt í þessu er sú staðreynd að hann í reynd fékk enga afgreiðslu innan stjórnsýslunnar þegar hann óskaði eftir því. Honum er vísað fram og til baka og enginn virðist treysta sér til þess að takast á við röksemdir hans sem voru vel grundaðar og studdar lagatilvísunum. Það var þá ekki fyrr en málið var komið til ráðuneytisins og til umboðsmanns Alþingis að málið fór að fá úrvinnslu. Eftir situr spurningin um skilvirkni kerfisins og hvernig það er eiginlega að virka fyrir almenna borgara sem þurfa leiðbeiningar. Ef þetta mál er dæmigert fyrir málsmeðferðina er augljóst að fólk getur ekki leitað til stjórnsýslunnar án liðsinnis lögmanns. Þá má líka spyrja sig hvernig jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins er framfylgt því ofangreint dæmi gefur það til kynna að þeir sem hafa úthaldið og burði til að kaupa sér þjónustu lögmanna fá betri afgreiðslu á endanum. Er þetta kerfið sem við viljum hafa?


Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður

Eftir Aslaug Svavarsdóttir 12. desember 2025
Málið varðar stórfellt fíkniefnalagabrot, nánar tiltekið innflutning rúmlega 13 kílóa af kókaíni með verulegum styrkleika. Ákærði flutti efnið til landsins frá Brussel í apríl á þessu ári. Héraðsdómur dæmdi ákærða í sex og hálfs árs fangelsi fyrir brotið. Ákærði hefur skýlaust játað sök og lýst einlægri iðrun fyrir dómi. Fyrir Landsrétti lagði verjandi ákærða áherslu á nokkur atriði. Í fyrsta lagi taldi hann að héraðsdómur hefði ekki tekið nægilegt tillit til aldurs ákærða. Í öðru lagi hélt hann því fram að ekki hefði verið litið nægilega til þess að ákærði hefði ekki komið að skipulagningu innflutningsins og að hann hefði eingöngu verið í hlutverki burðardýrs. Í þriðja lagi taldi verjandinn að refsingin væri ekki í samræmi við dómvenju í sambærilegum málum, og að hún væri of þung að mati hans. Að þessu virtu fór verjandi mannsins, Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður, fram á að refsing ákærða yrði verulega lækkuð. Niðurstaða Landsréttar var að refsing ákærða var færð niður um eitt og hálft ár – eða niður í 5 ár.
21. nóvember 2025
Í dag bárust ánægjuleg tíðindi frá Sjúkratryggingum Íslands, sem tengjast máli okkar skjólstæðings. Málið varðar meðferð á Landspítala þar sem talið var að meðferðin hefði ekki verið framkvæmd í samræmi við bestu fyrirmæli og reynslu á sviðinu. Ákveðið var að sýna hefði átt meiri aðgát, sérstaklega varðandi lyfjagjöf, sem leiddi til alvarlegrar hjartsláttartruflunar. Einnig var það mat Sjúkratrygginga Íslands að meðferðin hafi ekki verið fullnægjandi, þar sem gleymdist að fjarlægja aðskotahlut úr legu sjúklings á gjörgæslu yfir 12 klst. Í ljósi þessa var bótaskylda samþykkt vegna heilsutjóns sem tjónþoli varð fyrir. Við erum stolt af því að geta staðið við hlið skjólstæðinga okkar í þeim málum sem varða þeirra réttindi og velferð.
19. nóvember 2025
Héraðsdómur Reykjavíkur komst nýverið að niðurstöðu í máli sem snýr að umfangsmiklum ágreiningi milli fyrrverandi rekstraraðila veitingastaðar. Málið hefur vakið athygli vegna ásakana sem þar komu fram, meðal annars um þjófnað, fölsun undirskriftar og meiðyrði. DV greindi m.a. frá niðurstöðu dómsins í frétt þann 18. nóvember 2025. Niðurstaða dómstólsins Í dómnum voru nokkrir þættir teknir til sérstaks mats. Skjólstæðingur okkar fékk hluta af kröfum sínum viðurkenndar, en aðrir þættir málsins voru ekki taldir uppfylla kröfur að mati dómsins. Um er að ræða flókið mál þar sem bæði staðreyndir og túlkun á lagareglum eru umdeildar og hafa verið ítrekað ágreiningsefni milli aðila. Áfrýjun til skoðunar  Til skoðunar er að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar í því skyni að fá tilteknir þætti málsins metna af Landsrétti, s.s. mat á sönnunargögnum og túlkun á ummælum og tilefni þeirra.