RÚV og að­gengis­stefna

Fyrir ekki svo löngu síðan var skipuð svokölluð aðgengisnefnd RÚV sem gaf út aðgengisstefnu Ríkisútvarpsins. Í umræddri aðgengisstefnu er lögð áhersla á að fjölbreytileiki í samfélaginu endurspeglist í miðlum RÚV. Það þýðir meðal annars að RÚV leggur áherslu á og beinlínis hvetur áhugasama um að sækja um störf hjá umræddum miðlum óháð kyni, kyntjáningu, þjóðerni og líkamlegu atgervi. Hér er RÚV sem er félag í ríkiseigu og þar með í eigu landsmanna að tryggja öllum, óháð aðstæðum eða stöðu, möguleika á að taka þátt í starfi innan félagsins. Þetta er jú mjög göfugt markmið hjá stofnun eins og RÚV sem byggir sína fjárhagslegu velferð á opinberum fjárveitingum skattgreiðenda. En þrátt fyrir hin göfugu markmið hinnar ágætu stofnunnar hafa miklar breytingar átt sér stað undir nýrri stjórn. Síðastliðið haust urðu breytingar hjá stofnuninni sem fólust meðal annars í því að táknmálsfréttir, sem höfðu verið við lýði um nærri 40 ára skeið, voru lagðar niður og ný aðferð tekin upp við miðlum frétta til heyrnarlausra. Þar var meðal annars heyrnarlausum einstaklingum sagt upp hjá stofnuninni sem höfðu starfað fyrir RÚV við gerð táknmálsfrétta í 38 ár. Var farið í það að ráða þess í stað einstaklinga með fulla heyrn til þess að táknmálstúlka sjónvarpsfréttir í rauntíma. Var heyrnarlausum einstaklingum sagt upp störfum af þessum sökum. Þessi ákvörðun hafði gífurleg áhrif á líf heyrnarlausra einstaklinga sem höfðu starfað fyrir stofnunina í áratugi og olli miklu fjárhagslegu og tilfinningalegu tjóni. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að um er að ræða einstakling sem eiga ekki auðvelt aðgengi að annarri vinnu en þeirri sem þeir höfðu áður hjá RÚV.


Þrátt fyrir göfug markmið stjórnenda RÚV um að greiða leið þeirra sem tilheyra viðkvæmum minnihlutahópum aðgengi að vinnu hjá stofnunni þá hefur lítið áorkast í að finna þeim sem misstu vinnuna við breytingarnar ný hlutverk hjá stofnunni. Ljóst má vera að þeir sem misstu vinnuna vegna umræddra breytinga hafa orðið fyrir verulegu tjóni vegna ákvörðunar RÚV að leggja niður táknmálsfréttir og fá þess í stað einstaklinga sem ekki eru heyrnarlausir og búa ekki við þá skerðingu að vera með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu til að flytja fréttirnar. Umræddur hópur sem missti vinnuna tilheyrir viðkvæmum hópi þar sem þeir líkt og áður sagði eru heyrnarlausir og njóta því sérstakrar verndar. Í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 er að finna almenna jafnræðisreglu, þar sem kemur fram að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ekki er um tæmandi talningu að ræða og orðalagið „stöðu að öðru leyti“ nær til fjölmargra atriða, svo sem heilsufars eða líkamlegs ástands. Þar að auki hefur dómaframkvæmd staðfest að mismunun á grundvelli fötlunar falli undir umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar. Einnig er fjallað um bann við mismunun í 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.


RÚV er þjóðarmiðill sem er ætlað að stuðla að menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi, skv. 1. mgr. 1. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Með því að útiloka umræddan hóp sem fellst í því að segja þeim upp og þá vinnu sem þau hafa stundað síðustu árin á RÚV er verið að koma í veg fyrir þá menningarlegu fjölbreytni sem RÚV á að stuðla að.


Það verður heldur ekki framhjá því lítið að þessir einstaklingar tilheyra viðkvæmum hópi fólks og standa nú á móti stóru fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins. Er umræddur hópur því í sérstaklega veikri samningsstöðu gagnvart RÚV og það að RÚV skuli úthýsa slíkum hópi er gífurlega slæmt. Sérstaklega í ljósi þess að fyrirtækið er í eigu íslenska ríkisins sem hefur undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eitt af megin markmiðum samningsins er að tryggja jafnrétti og bann við mismunum á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins. Í 27. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er svo sérstaklega fjallað um vinnu og starf. Þar er kveðið á um að aðildarríki skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra til vinnu.


Líkt og ég hef áður komið inn á þá er RÚV hætt með almennan táknmálsfréttatíma þar sem heyrnarlausir einstaklingar flytja fréttir á táknmáli áður en hinn hefðbundni fréttatími byrjar og þess í stað fá einstaklinga sem ekki búa við heyrnarskerðingar að flytja táknmálsfréttir í rauntíma með hinum hefðbundna fréttatíma Ríkisútvarpsins. Með því er verið að hafa atvinnu af þeim einstaklingum sem búa við samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og þess í stað ráða einstaklinga sem ekki búa við slíkar skerðingar. Það verður ekki framhjá því litið að það hefði verið nær að standa betur að umræddum uppsögnum og tryggja það að við breytingarnar hefði verið tilbúin áætlun sem hefði tekið strax við þannig að störf innan RÚV hefðu verið í boði fyrir þennan hóp, önnur en tilfallandi tímabundin verkefni. Þess í stað hefur þessi hópur verið í óvissu með framhaldið síðan umrædd uppsögn var tilkynnt.


RÚV hefur brugðist við gagnrýni vegna umræddra uppsagna með þeim hætti að segja að breytingarnar hafi verið nauðsynlegar og í takt við nútímakröfur og aðgengi að fréttum. Það má auðvitað færa rök fyrir því að svo sé en það breytir ekki þeirri staðreynd að einstaklingar innan þessa hóps hafa ekki fengið ný störf í kjölfar uppsagna og lítið orðið um gefin loforð um úrbætur í þeim efnum. Þá verður að gagnrýna að RÚV hefur haldið því fram að breytingarnar hafi mælst vel fyrir hjá heyrnarlausum. Sú fullyrðing er ekki byggð á formlegri athugun og virðist einungis studd við umsögn aðila sem lét þá skoðun sína í ljós með óformlegum hætti.


Hvað sem þessu líður þá er ljóst að það gengur ekki upp að útiloka minnihlutahóp, sem hefur með hollustu og trygglyndi sinnt störfum sínum í áratugi, frá störfum innan stofnunarinnar á sama tíma og því er haldið fram að verið sé að tryggja aðgengi minnihlutahópa að störfum innan stofnunarinnar. Hér fer ekki saman hljóð og mynd í rökstuðningi RÚV.



Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður

24. október 2025
Við upphaf sambúðar spáir fólk því miður lítið í það hvernig fer með fjármál þeirra ef til sambúðarslita kæmi, en í upphafi skal endinn skoða eins og máltækið segir. Það getur skipt sköpum að gengið sé rétt frá þessum hlutum strax í upphafi. Við fjárslit óvígðrar sambúðar gilda ekki sérstök lög eins og um hjónabönd, heldur er byggt á óskráðum meginreglum og dómaframkvæmd. Hafi sambúð varað lengur en tvö ár er hægt að krefjast opinberra skipta til fjárslita og gilda þá ákvæði laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. um þau fjárskipti. Meginreglan við fjárslit sambúðarfólks leggur áherslu á að líta beri á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga, þar sem hvor aðili tekur með sér sínar eignir og skuldir nema annað sé sannað. Þegar fólk er að hefja sambúð og kaupa sitt fyrsta sameiginlega húsnæði geta fjárframlög sem hvort fyrir sig kemur með í sambúðina verið mishá. Ekki er óalgengt að sambúðaraðilar láti þennan mismun endurspeglast í skráðum eignarhlut hvors í fasteigninni þannig að sá aðili sem kemur með meira fjármagn inn í sambúðina er skráður fyrir hærri eignarhlut í eigninni. Fasteignaveðlán sem tekin eru sameiginlega eru aftur á móti nær undantekningarlaust skráð til helminga. Nýlegur dómur Hæstaréttar sem féll 21. maí sl. í málinu nr. 22/2025 hefur skýrt nánar hvernig fara skuli með sameiginlegar fasteignir og skuldir sem á þeim hvíla, sérstaklega þegar eignarhlutir eru ólíkir en skuldabyrði jöfn. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að tryggja réttaröryggi og fyrirsjáanleika í fjármálum sambúðarfólks. Í dóminum var deilt um uppgjör fasteignar þar sem annar aðilinn átti 55% og hinn 45%, en báðir báru jafna ábyrgð á áhvílandi skuldum. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það væri rangt að draga skuldirnar í heild frá söluverðinu og skipta síðan hreinni eign á milli aðila. Í staðinn átti að skipta brúttó söluandvirði fasteignarinnar í hlutföllunum 55% og 45% áður en helmingshlutur hvors þeirra í áhvílandi skuldum eignarinnar væri dreginn frá hlut hvors um sig. Þessi niðurstaða hefur þau áhrif að þegar sambúðarfólk kaupir fasteign með ójöfnum eignarhlutum en tekur sameiginleg lán með jafnri ábyrgð, ber að nota þessa útreikningsaðferð. Þetta þýðir að sá aðili sem á minni eignarhlut en skuldar samt 50% af áhvílandi veðláni getur setið uppi með töluvert minna á milli handanna en ef hinni aðferðinni væri bætt, það er að segja að skipta hreinni eign eftir frádrátt skulda. Sem dæmi mætti nefna að aðili, sem skráður er fyrir 30% hlut í sameiginlegri fasteign en er 50% skuldari af sameiginlegu fasteignaláni, gæti lent í því við sambúðarlist að helmings hlutur hans í skuldinni éti upp allan eignarhlutinn, á meðan að hinn aðilinn, sem skráður er fyrir meiri eign en skuldar jafnmikið, fær þá hreina eign í sinn hlut. Til að verjast hugsanlegum ágreiningi við fjárslit óvígðrar sambúðar er fólki sem er að hefja sambúð ráðlagt að huga vel að fjármálum sínum frá upphafi. Til að tryggja skýrleika og réttaröryggi er afar brýnt fyrir fólk að ákveða, jafnvel formlega með sérstökum sambúðarsamningi, hvernig bæði eignum og skuldum eigi að vera skipt við möguleg sambúðarslit, í stað þess að skipta bara eignarhlutum eins og algengt er. Mikilvægt er að misjafnt eignarhlutfall endurspeglist líka í skuldahlutfalli sambúðaraðila. Höfundur er Hæstaréttarlögmaður Sævar Þór Jónsson.
17. október 2025
Sævar Þór og Partners hafa samið við fyrirtækið Jónsbók um aðgang að öflugum hugbúnaði þess sem íslenska fyrirtækið Raxiom hefur þróað og byggir á háþróaðri gervigreind. Jónsbók er heildstæð lausn sem veitir okkur aðgang að öllum helstu gagnagrunnum sem tengjast íslensku lagaumhverfi: lögum, reglugerðum, dómum, úrskurðum; íslenskum og erlendum réttarheimildum sem og öðru lagatengdu efni sem allt er uppfært reglulega.  Öll gögn hjá Jónsbók eru geymd dulkóðuð með öruggum aðgangsstýringum og eru ekki notuð til þróunar á gervigreind. Við hjá Sævari Þór og Partners erum himinlifandi yfir þessu samstarfi sem mun tryggja enn frekari gæðin í okkar vinnu, auka afköst og framlegð um leið og það verður bæði einfaldara og þægilegra að nálgast réttar upplýsingar.