Styrkt staða brota­þola

Á síðustu vikum og mánuðum hafa kynferðisbrot og tjáningarfrelsið mikið verið í umræðunni. Hefur fjöldi kvenna stigið fram og greint frá brotum sem þær hafa orðið fyrir og þau brot sem mesta umfjöllun hafa fengið hafa meintir gerendur verið „stórir karlar í samfélaginu“ eða menn með völd.


Það sem hefur einkennt umræðuna fyrir utan brotin sjálf er sú leið sem hefur verið farin til þess að greina frá meintum brotum en með tilkomu internetsins og þá ekki síst samfélagsmiðlum er nú mun auðveldara en áður að koma upplýsingum á framfæri. Við höfum séð það síðustu vikur að það hefur færst í aukana að greina frá meintum brotum á slíkum miðlum, allt í skjóli tjáningarfrelsisins sem er lögfest í 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.


Það sem jafnframt hefur vakið athygli er sú staðreynd að flest þeirra mála sem hafa verið í umræðunni hafa ekki verið kærð. Vaknar þá upp sú spurning hvers vegna brotin hafa ekki verið kærð til lögreglu þar sem á Íslandi er réttarríki og er það hlutverk dómstóla að dæma einstaklinga seka eða saklausa.


Það er því miður sannleikurinn að lág tíðni tilkynntra kynferðisbrota endar með sakfellingu. Þá er einungis um að ræða þau brot sem eru yfir höfuð tilkynnt og eru ákærð en falla ekki niður við rannsókn málsins. Því að staðreyndin er sú að kynferðisbrotamál eru erfið í sönnun, enda oftar en ekki eru einungis um að ræða orð gegn orði og allan vafa um sekt sakbornings ber að túlka honum í hag. Er það meginsjónarmið í sakamálaréttarfari að framburður eins vitnis gegn neitun ákærða nægir ekki til sakfellingar og líkt og Stígamót hafi vakið athygli á síðustu daga þá er þolandi kynferðisbrots einungis vitni í sínu máli. Verður framburðurinn að eiga sér stoð í öðrum gögnum málsins en ekki er fast í hendi hvaða gögn nægi þar til.


Sé litið til þeirra þungu sönnunarbyrði sem er í kynferðisbrotamálum þá kemur það lítið á óvart hversu mörg brot eru framin miðað við þau sem við sjáum á borði lögreglu og þess þá heldur hjá dómstólum landsins. Samkvæmt könnun frá árinu 2014 þar sem rætt var við 42.000 konur frá ESB löndunum, hafði þriðjungur þeirra orðið fyrir líkamlegu/kynferðislegu ofbeldi eftir 15 ára aldur. Niðurstöðurnar voru og eru sláandi og sýnir okkur að málafjöldi innan réttarvörslukerfisins endurspeglar engan veginn raunverulega stöðu kvenna.


Sé litið til alls ofangreinds þá kemur það lítið á óvart að konur ákveði að fara þá leið að greina frá meintum brotum frekar opinberlega heldur en að kæra þau. Eflaust er það hluti af bataferli brotaþola að greina opinberlega frá málum og setja það í hendur samfélagsins að dæma gerendur. Það eru þó önnur úrræði til þess að styrkja bataferli brotaþola sem notast er við í löndum í kringum okkur og vert væri að skoða. Fyrst ber að nefna að brotaþoli verði aðili að máli og tryggja þar með að hann fái rödd í sínu máli. Annað úrræði er sáttamiðlun, en í sáttamiðlun hittast gerandi og brotaþoli ásamt hlutlausum sáttamiðlara. Sáttamiðlunin einblýnir þá fyrst og fremst á þarfir og hagsmuni brotaþola og að vera sem aðhlynning fyrir hann ásamt því að vera vettvangur fyrir brotaþola til að ræða við geranda og spyrja þeirra spurninga sem þeir þrá svör við. Talið er að sáttamiðlun geti veitt brotaþola ákveðin málalok og hjálpi til við að bæta tilfinningalega skaðann sem oftar en ekki er talinn hafa verri áhrif heldur en líkamlegur skaði. Sáttamiðlun fer þó aldrei fram nema báðir aðilar samþykki það.


Af umræðunni síðustu vikur og mánuði er ljóst að breytinga sé þörf svo þolendur kynferðisofbeldis treysti sér til að leggja mál sín í hendur lögreglu, ákæruvaldsins og dómstóla.


Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður

Eftir Aslaug Svavarsdóttir 12. desember 2025
Málið varðar stórfellt fíkniefnalagabrot, nánar tiltekið innflutning rúmlega 13 kílóa af kókaíni með verulegum styrkleika. Ákærði flutti efnið til landsins frá Brussel í apríl á þessu ári. Héraðsdómur dæmdi ákærða í sex og hálfs árs fangelsi fyrir brotið. Ákærði hefur skýlaust játað sök og lýst einlægri iðrun fyrir dómi. Fyrir Landsrétti lagði verjandi ákærða áherslu á nokkur atriði. Í fyrsta lagi taldi hann að héraðsdómur hefði ekki tekið nægilegt tillit til aldurs ákærða. Í öðru lagi hélt hann því fram að ekki hefði verið litið nægilega til þess að ákærði hefði ekki komið að skipulagningu innflutningsins og að hann hefði eingöngu verið í hlutverki burðardýrs. Í þriðja lagi taldi verjandinn að refsingin væri ekki í samræmi við dómvenju í sambærilegum málum, og að hún væri of þung að mati hans. Að þessu virtu fór verjandi mannsins, Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður, fram á að refsing ákærða yrði verulega lækkuð. Niðurstaða Landsréttar var að refsing ákærða var færð niður um eitt og hálft ár – eða niður í 5 ár.
21. nóvember 2025
Í dag bárust ánægjuleg tíðindi frá Sjúkratryggingum Íslands, sem tengjast máli okkar skjólstæðings. Málið varðar meðferð á Landspítala þar sem talið var að meðferðin hefði ekki verið framkvæmd í samræmi við bestu fyrirmæli og reynslu á sviðinu. Ákveðið var að sýna hefði átt meiri aðgát, sérstaklega varðandi lyfjagjöf, sem leiddi til alvarlegrar hjartsláttartruflunar. Einnig var það mat Sjúkratrygginga Íslands að meðferðin hafi ekki verið fullnægjandi, þar sem gleymdist að fjarlægja aðskotahlut úr legu sjúklings á gjörgæslu yfir 12 klst. Í ljósi þessa var bótaskylda samþykkt vegna heilsutjóns sem tjónþoli varð fyrir. Við erum stolt af því að geta staðið við hlið skjólstæðinga okkar í þeim málum sem varða þeirra réttindi og velferð.
19. nóvember 2025
Héraðsdómur Reykjavíkur komst nýverið að niðurstöðu í máli sem snýr að umfangsmiklum ágreiningi milli fyrrverandi rekstraraðila veitingastaðar. Málið hefur vakið athygli vegna ásakana sem þar komu fram, meðal annars um þjófnað, fölsun undirskriftar og meiðyrði. DV greindi m.a. frá niðurstöðu dómsins í frétt þann 18. nóvember 2025. Niðurstaða dómstólsins Í dómnum voru nokkrir þættir teknir til sérstaks mats. Skjólstæðingur okkar fékk hluta af kröfum sínum viðurkenndar, en aðrir þættir málsins voru ekki taldir uppfylla kröfur að mati dómsins. Um er að ræða flókið mál þar sem bæði staðreyndir og túlkun á lagareglum eru umdeildar og hafa verið ítrekað ágreiningsefni milli aðila. Áfrýjun til skoðunar  Til skoðunar er að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar í því skyni að fá tilteknir þætti málsins metna af Landsrétti, s.s. mat á sönnunargögnum og túlkun á ummælum og tilefni þeirra.