HIV og réttinda­bar­átta hin­segin fólks

Réttindabarátta hinsegin fólks hefur náð miklum árangri þó einhver bakslög hafa komið. Við getum litið til baka og minnst þess hversu langt við höfum náð.


Sumir hafa meira að segja verið heiðraðir fyrir framlag sitt til þeirrar baráttu, þótt deila megi um hversu vel einstaka aðilar hafi verið að þeirri viðurkenningu komnir. Það er brýnt að minnast þeirra sem ruddu brautina fyrir hinsegin fólk á Íslandi - þeirra sem sjaldan og jafnvel aldrei er minnst á. Það eru þeir sem féllu fyrir Alnæmi á upphafsárum þess skelfilega sjúkdóms í byrjun níunda áratugarins.


Samhengi hlutanna kemur betur í ljós þegar litið er til baka og réttindabarátta hinsegin fólks var skammt á veg kominn í upphaf níunda áratugarins þegar þessi illvígi sjúkdómur fór að herja á samkynhneigða karlmenn hér landi. Sjúkdómurinn ýtti undir fordóma í garð samkynhneigðra, sem áttu þá þegar undir högg að sækja í baráttunni fyrir tilverurétti sínum. Áhrifin voru skelfileg og gjá myndaðist í samfélaginu á milli þess annars vegar að sinna þessum fárveiku einstaklingum og hins vegar að vilja ekkert með þá hafa.


Stjórnvöld bæði hér heima og erlendis voru treg til að viðurkenna að um einhvers konar faraldur væri að ræða og því var ekki grípið til forvarna eða forvirkra aðgerða í upphafi. Það dylst engum sem skoða söguna að á þessum tíma grasseraði hér á landi kerfislæg andstaða við samkynhneigð sem hafði áhrif á hvernig tekið var á þessum málum. Þeir sem veiktust og aðstandendur þeirra þurftu oftar en ekki að fela veikindi sín vegna fordóma innan samfélagsins og jafnvel innan heilbrigðiskerfisins sjálfs. Hinir veiku fengu oft gloppótta þjónustu innan heilbrigðiskerfisins, þjónustu sem við teljum í dag sjálfsagða, og henni fylgdi oft smánun og jafnvel fyrirlitning.


Það er furðulegt í því samfélagi sem við lifum í dag, með reynsluna eftir Covid-19 faraldurinn, að hugsa til þrautagöngu þeirra sem smituðust af HIV á sínum tíma og aðstandenda þeirra. Hefði samfélagið og kerfið tekið á málum með skynsemi og röggsemi, líkt og við gerðum í Covid-19 faraldrinum, þá hefði sagan og afleiðingarnar orðið aðrar en raun ber vitni. Það er auðvelt að vera vitur eftir á þegar horft er til baka á liðna atburði með gleraugum nútímans en þrátt fyrir það þá stendur upp úr sú staðreynd að fordómar og fáfræði höfðu alltof mikil áhrif.


Það var ekki fyrr en að aðstandendur sjálfir, samfélag samkynhneigðra og einstaka heilbrigðisstarfsmenn fóru að taka málin í sínar eigin hendur að stjórnvöld tóku loks á sig rögg. Það rann upp fyrir yfirvöldum að til þess að geta tekið á faraldrinum þá þurfti að viðurkenna tilverurétt og réttindi þessa samfélagshóps. Því miður var það nokkrum árum of seint og skaðinn orðinn mikill þegar horft er á þau mannslíf sem glötuðust, fyrir utan þau fjölmörgu mannréttindabrot sem þessi hópur þurfti að þola.


Þegar sögur þessara manna og fjölskyldna þeirra eru skoðaðar er deginum ljósara hversu þungt fórnir þeirra vega á framþróun réttinda samkynhneigðra. Það var áralöng barátta þessa fólks við heilbrigðiskerfið og samfélagið sem að lokum skilaði því að stjórnvöld fóru að sjá hlutina í réttu ljósi. Og um leið og sjúkdómurinn fór að vera meðhöndlaður af skynsemi þá rann upp fyrir fólki hve augljós réttindabarátta samkynhneigðra væri. Þessi saga líkt og aðrar sögur fær sinn dóm hjá seinni tíma kynslóðum. Það er löngu orðið tímabært að hún fái sitt réttmæta uppgjör, líkt og gert hefur verið á öðrum sviðum þar sem stjórnvöld hafa brugðist þeim sem þurftu á aðstoð og stuðningi að halda.


Þessa sögu verður að skoða í réttum ljósi og við sem samfélag og hið opinbera að viðurkenna mistökin sem voru gerð en um leið sýna þeim sem fórnuðu öllu, þar á meðal lífi sínu, þá mannlegu virðingu sem samtíminn neitaði þeim um en þeir áttu svo sannarlega skilið. Ríkisstjórnin ætti að biðja þetta fólk afsökunar á þeirri vanvirðandi meðferð sem það fékk af hendi heilbrigðiskerfisins. Samfélagið, sér í lagi hinsegin samfélagið, á að minnast þessara einstaklinga og sýna þeim og þjáningum þeirra virðingu. Það er mín ósk að þeim yrði veittur verðskuldaður heiðurs, jafnvel reistur minnisvarði eða önnur opinber viðurkenning. Án þeirra er ekki sjálfgefið að við stæðum í þeim sporum sem við gerum í dag.


Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður

Eftir Aslaug Svavarsdóttir 12. desember 2025
Málið varðar stórfellt fíkniefnalagabrot, nánar tiltekið innflutning rúmlega 13 kílóa af kókaíni með verulegum styrkleika. Ákærði flutti efnið til landsins frá Brussel í apríl á þessu ári. Héraðsdómur dæmdi ákærða í sex og hálfs árs fangelsi fyrir brotið. Ákærði hefur skýlaust játað sök og lýst einlægri iðrun fyrir dómi. Fyrir Landsrétti lagði verjandi ákærða áherslu á nokkur atriði. Í fyrsta lagi taldi hann að héraðsdómur hefði ekki tekið nægilegt tillit til aldurs ákærða. Í öðru lagi hélt hann því fram að ekki hefði verið litið nægilega til þess að ákærði hefði ekki komið að skipulagningu innflutningsins og að hann hefði eingöngu verið í hlutverki burðardýrs. Í þriðja lagi taldi verjandinn að refsingin væri ekki í samræmi við dómvenju í sambærilegum málum, og að hún væri of þung að mati hans. Að þessu virtu fór verjandi mannsins, Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður, fram á að refsing ákærða yrði verulega lækkuð. Niðurstaða Landsréttar var að refsing ákærða var færð niður um eitt og hálft ár – eða niður í 5 ár.
21. nóvember 2025
Í dag bárust ánægjuleg tíðindi frá Sjúkratryggingum Íslands, sem tengjast máli okkar skjólstæðings. Málið varðar meðferð á Landspítala þar sem talið var að meðferðin hefði ekki verið framkvæmd í samræmi við bestu fyrirmæli og reynslu á sviðinu. Ákveðið var að sýna hefði átt meiri aðgát, sérstaklega varðandi lyfjagjöf, sem leiddi til alvarlegrar hjartsláttartruflunar. Einnig var það mat Sjúkratrygginga Íslands að meðferðin hafi ekki verið fullnægjandi, þar sem gleymdist að fjarlægja aðskotahlut úr legu sjúklings á gjörgæslu yfir 12 klst. Í ljósi þessa var bótaskylda samþykkt vegna heilsutjóns sem tjónþoli varð fyrir. Við erum stolt af því að geta staðið við hlið skjólstæðinga okkar í þeim málum sem varða þeirra réttindi og velferð.
19. nóvember 2025
Héraðsdómur Reykjavíkur komst nýverið að niðurstöðu í máli sem snýr að umfangsmiklum ágreiningi milli fyrrverandi rekstraraðila veitingastaðar. Málið hefur vakið athygli vegna ásakana sem þar komu fram, meðal annars um þjófnað, fölsun undirskriftar og meiðyrði. DV greindi m.a. frá niðurstöðu dómsins í frétt þann 18. nóvember 2025. Niðurstaða dómstólsins Í dómnum voru nokkrir þættir teknir til sérstaks mats. Skjólstæðingur okkar fékk hluta af kröfum sínum viðurkenndar, en aðrir þættir málsins voru ekki taldir uppfylla kröfur að mati dómsins. Um er að ræða flókið mál þar sem bæði staðreyndir og túlkun á lagareglum eru umdeildar og hafa verið ítrekað ágreiningsefni milli aðila. Áfrýjun til skoðunar  Til skoðunar er að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar í því skyni að fá tilteknir þætti málsins metna af Landsrétti, s.s. mat á sönnunargögnum og túlkun á ummælum og tilefni þeirra.