Aukin aðgæsluskylda öku­manna

Þrátt fyrir mikla aukningu hérlendis á umferð og fjölgun ökutækja þá hefur umtalsverður árangur náðst í baráttunni gegn umferðarslysum á undanförnum árum.


Árið 1907 voru lögboðnar umferðarreglur hér á landi að finna í lögum um vegi nr. 57/1907 og voru fyrstu bifreiðalögin í kjölfarið lögfest 7 árum síðar með lögum nr. 21/1914. Síðan þá hefur samfélagið tekið miklum breytingum og hafa farartæki, vegir og samgönguvenjur manna breyst verulega. Það var svo ekki fyrr en árið 1940 sem fyrstu umferðarlögin voru lögfest með lögum nr. 110/1940.


Þegar litið er yfir þróun bifreiðalaga frá árinu 1914 og til ársins 2019 eða þegar núgildandi umferðarreglur voru lögfestar má sjá hvernig svokallaðar hátternisreglurnar hafa tekið breytingum samhliða breytingum samfélagsins. Í dæmaskyni má nefna að í 8 gr. umferðarlaga nr. 21/1914 var kveðið á um skyldu ökumanna til þess að gefa hljóðmerki þegar hætt var við árekstri. Segir þar m.a. að óheimilt sé fyrir ökumann að gefa hljóðmerki þegar ekið er framhjá hestum og skuli hestar fælast við hljóðmerki eða verða óróir skuli þegar í stað hætta að gefa hljóðmerkið. Þó að áðurnefnt ákvæði umferðarlaga sé ekki að finna í núgildandi umferðarlögum nr. 77/2019 þá eru líkt og áður lögfestar hátternisreglur sem eiga það sameiginlegt að stuðla að auknu umferðaröryggi.


Óþarft er að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að reglur er varðar ökutæki og umferð séu skýrar svo að auðskiljanlegt sé fyrir hinn almenna borgara að átta sig á því hvaða háttsemi sé leyfileg í umferðinni enda stuðlar það að auknu umferðaröryggi.


Við ættum öll að geta fallist á að það væri brot á umferðarlögunum ef einstaklingur sest drukkinn undir stýri og verður í kjölfarið valdur af umferðarslysi. Þá kæmi það okkur ekki á óvart ef viðkomandi yrði látin sæta ábyrgð. Hið sama má segja um þann sem verður valdur af umferðarslysi með samskonar ábyrgðarlausri og/eða refsiverðri háttsemi. En hvað með einstaklinga sem eru allsgáðir við akstur, keyra á löglegum hraða, eru með athyglina við aksturinn og haga honum að öllu leyti eftir aðstæðum, lögum og reglum. Verði þeir svo óheppnir að valda umferðarslysi sem í för með sér hefur líkamstjón eða manntjón, mega þeir vænta þess að þeir verði látnir sæta ábyrgð líkt og áðurnefndu ökumennirnir?


Hér áður fyrr hefði svarið við þessari spurningu eflaust verið nei en ef nýlegir dómar eru hafðir til hliðsjónar má sjá hvernig búið er að móta gáleysismatið þannig að óverulegt gáleysi í umferðinni getur bakað mönnum refsingu.


Að því er varðar manndráp af gáleysi í umferðinni virðist sem íslenskir dómstólar hafi hér áður fyrr verið vægari í að sakfella í slíkum málum en dómstólar í nágrannalöndum okkar. Þá ber dómaframkvæmdin með sér að stórfellt gáleysi hafi þurft til sakfellingar hins ákærða og má hið sama segja um sakfellingu fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi skv. 219. almennra hegningarlaga. Í dag er þó staðan önnur líkt og nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll fyrr á þessu ári ber með sér.


Fyrir skömmu fékk ég inn á borð til mín mál einstaklings sem ákærður var fyrir hegningar- og umferðarlagabrot en viðkomandi hafði lent í umferðarslysi með þeim afleiðingum að ökumaður annarrar bifreiðar slasaðist töluvert. Viðkomandi hafði hvorki verið undir áhrifum áfengis né hugbreytandi efna, hann hafði ekið á löglegum hraða, var ekki í símanum við akstur og var ökutæki hans í fullkomnu lagi. Í raun kom ekkert fram í gögnum málsins né fyrir dómi að aksturslag viðkomandi hafi verið á einhvern hátt ábótavant. Samt sem áður var honum gefið að sök líkamsmeiðing af gáleysi og umferðarlagabrot. Að lokum var viðkomandi sakfelldur fyrir brotið skv. ákæru og er erfitt að sjá fyrir sér aðstæður þar sem hann hefði að getað komið í veg fyrir slysið.


Í íslensku réttarfari er að finna mikilvæga meginreglu um sönnunarbyrði í sakamálum en meginreglan kveður á um að sönnunarbyrði fyrir sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þannig verður ákærða ekki gert áfelli nema að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök, sbr. 109. gr. sömu laga. Allan vafa á svo að skýra ákærða í hag sbr. 2. mgr. 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.


Með vísan í ofangreint er engu líkara en að ákæruvaldið virðist ekki lengur þurfa að færa fullnægjandi sönnur fyrir því að hinn ákærði hafi með gáleysi brotið gegn almennum hegningarlögum heldur sé nægjanlegt til sakfellingar að brotið sé sannað, þ.e. að umferðarslys hafi orðið og í kjölfarið líkams- eða manntjón. Hið sama má segja um niðurstöðuna í máli strætisvagnabílstjórans í máli nr. S-3865/2023. Óhjákvæmilega situr eftir spurningin hvar dómstólar séu farnir að draga mörkin þegar um ræðir annars vegar óhappatilvik og hins vegar gáleysisbrot eða heyra óhappatilvik í umferðinni kannski sögunni til? Er það samfélagið sem við viljum búa í?


Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður

24. október 2025
Við upphaf sambúðar spáir fólk því miður lítið í það hvernig fer með fjármál þeirra ef til sambúðarslita kæmi, en í upphafi skal endinn skoða eins og máltækið segir. Það getur skipt sköpum að gengið sé rétt frá þessum hlutum strax í upphafi. Við fjárslit óvígðrar sambúðar gilda ekki sérstök lög eins og um hjónabönd, heldur er byggt á óskráðum meginreglum og dómaframkvæmd. Hafi sambúð varað lengur en tvö ár er hægt að krefjast opinberra skipta til fjárslita og gilda þá ákvæði laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. um þau fjárskipti. Meginreglan við fjárslit sambúðarfólks leggur áherslu á að líta beri á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga, þar sem hvor aðili tekur með sér sínar eignir og skuldir nema annað sé sannað. Þegar fólk er að hefja sambúð og kaupa sitt fyrsta sameiginlega húsnæði geta fjárframlög sem hvort fyrir sig kemur með í sambúðina verið mishá. Ekki er óalgengt að sambúðaraðilar láti þennan mismun endurspeglast í skráðum eignarhlut hvors í fasteigninni þannig að sá aðili sem kemur með meira fjármagn inn í sambúðina er skráður fyrir hærri eignarhlut í eigninni. Fasteignaveðlán sem tekin eru sameiginlega eru aftur á móti nær undantekningarlaust skráð til helminga. Nýlegur dómur Hæstaréttar sem féll 21. maí sl. í málinu nr. 22/2025 hefur skýrt nánar hvernig fara skuli með sameiginlegar fasteignir og skuldir sem á þeim hvíla, sérstaklega þegar eignarhlutir eru ólíkir en skuldabyrði jöfn. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að tryggja réttaröryggi og fyrirsjáanleika í fjármálum sambúðarfólks. Í dóminum var deilt um uppgjör fasteignar þar sem annar aðilinn átti 55% og hinn 45%, en báðir báru jafna ábyrgð á áhvílandi skuldum. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það væri rangt að draga skuldirnar í heild frá söluverðinu og skipta síðan hreinni eign á milli aðila. Í staðinn átti að skipta brúttó söluandvirði fasteignarinnar í hlutföllunum 55% og 45% áður en helmingshlutur hvors þeirra í áhvílandi skuldum eignarinnar væri dreginn frá hlut hvors um sig. Þessi niðurstaða hefur þau áhrif að þegar sambúðarfólk kaupir fasteign með ójöfnum eignarhlutum en tekur sameiginleg lán með jafnri ábyrgð, ber að nota þessa útreikningsaðferð. Þetta þýðir að sá aðili sem á minni eignarhlut en skuldar samt 50% af áhvílandi veðláni getur setið uppi með töluvert minna á milli handanna en ef hinni aðferðinni væri bætt, það er að segja að skipta hreinni eign eftir frádrátt skulda. Sem dæmi mætti nefna að aðili, sem skráður er fyrir 30% hlut í sameiginlegri fasteign en er 50% skuldari af sameiginlegu fasteignaláni, gæti lent í því við sambúðarlist að helmings hlutur hans í skuldinni éti upp allan eignarhlutinn, á meðan að hinn aðilinn, sem skráður er fyrir meiri eign en skuldar jafnmikið, fær þá hreina eign í sinn hlut. Til að verjast hugsanlegum ágreiningi við fjárslit óvígðrar sambúðar er fólki sem er að hefja sambúð ráðlagt að huga vel að fjármálum sínum frá upphafi. Til að tryggja skýrleika og réttaröryggi er afar brýnt fyrir fólk að ákveða, jafnvel formlega með sérstökum sambúðarsamningi, hvernig bæði eignum og skuldum eigi að vera skipt við möguleg sambúðarslit, í stað þess að skipta bara eignarhlutum eins og algengt er. Mikilvægt er að misjafnt eignarhlutfall endurspeglist líka í skuldahlutfalli sambúðaraðila. Höfundur er Hæstaréttarlögmaður Sævar Þór Jónsson.
17. október 2025
Sævar Þór og Partners hafa samið við fyrirtækið Jónsbók um aðgang að öflugum hugbúnaði þess sem íslenska fyrirtækið Raxiom hefur þróað og byggir á háþróaðri gervigreind. Jónsbók er heildstæð lausn sem veitir okkur aðgang að öllum helstu gagnagrunnum sem tengjast íslensku lagaumhverfi: lögum, reglugerðum, dómum, úrskurðum; íslenskum og erlendum réttarheimildum sem og öðru lagatengdu efni sem allt er uppfært reglulega.  Öll gögn hjá Jónsbók eru geymd dulkóðuð með öruggum aðgangsstýringum og eru ekki notuð til þróunar á gervigreind. Við hjá Sævari Þór og Partners erum himinlifandi yfir þessu samstarfi sem mun tryggja enn frekari gæðin í okkar vinnu, auka afköst og framlegð um leið og það verður bæði einfaldara og þægilegra að nálgast réttar upplýsingar.