Að skilja fag­lega

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands enda um 40% hjónabanda með lögskilnaði. Áður en lögskilnaður er veittur þarf fólk að slíta fjárfélagi sínu sem það hefur haft í hjúskapnum. Oftast gilda þá helmingaskiptaregla hjúskaparréttarins. En stundum eru áherslur fólks aðrar en fjárhagslegar en geta samt spilað inn í fjárslitin með ýmsum hætti. Eitt nýlegt dæmi endaði fyrir dómi. Þar höfðu hjón tengt lögheimili og skólagöngu barnanna við fjárslitin þegar þau skildu.


Hjónin áttu fasteign saman sem var heimili fjölskyldunnar. Aðilar voru sammála um mikilvægi þess að tryggja stöðugleika fyrir börnin sem voru á grunnskólaaldri. Af þeim sökum sömdu hjónin um að konan héldi fasteigninni, heimili fjölskyldunnar, án þess að borga manninn út og börnin hefðu lögheimili hjá henni. Maðurinn setti það skilyrði að börnin myndu þá klára skólagöngu sína í sama sveitarfélagi og konan myndi ekki flytja með þau í annað sveitarfélaga meðan þau væru í grunnskóla. Ef konan myndi gera það þá ætti maðurinn tilkall í helming af söluandvirði fasteignarinnar að frádregnum áhvílandi veðskuldum.

Nokkrum árum seinna seldi konanfasteignina og flutti í annað sveitarfélag meðan börnin voru enn í grunnskóla. Í kjölfarið krafði maðurinn konuna um greiðslu helmings af söluandvirði fasteignarinnar að frádregnum áhvílandi veðskuldum. Konan hafnaði greiðslu og taldi að maðurinn hefði í raun gefið þetta eftir fyrir fjölskylduna. Hún hefði verið í góðri trú um að hann myndi ekki gera kröfu í söluandvirðið síðar. Konan hélt því líka fram að hún hefði verið í miklu andlegu ójafnvægi við skilnaðinn sem olli því að samningurinn var bersýnilega ósanngjarn fyrir hana. Taldi konan einnig að samningurinn skerti frelsi hennar til að velja sér búsetu. Samningurinn var engu að síður talinn gildur fyrir dómi og konunni gert að greiða manninum helminginn af söluandvirði eignarinnar að frádregnum veðskuldum.


Þetta dæmi sýnir mikilvægi þess að fólki njóti faglegrar ráðgjafar við skilnað og fjárslit. Margir ganga í gegnum skilnað og vilja gera það í góðu eða telja sig geta klárað málin í sátt með fyrrverandi maka. Fólk fær ákveðnar leiðbeiningar frá sýslumanni við skilnað og fjárslit en hlutverk sýslumanns markast af því að gæta að almennum skilyrðum laga og málsmeðferðar. Þegar kemur að einstaklingsbundinni ráðgjöf þá er alltaf betra fá viðeigandi faglega ráðgjöf.


Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður

Eftir Aslaug Svavarsdóttir 12. desember 2025
Málið varðar stórfellt fíkniefnalagabrot, nánar tiltekið innflutning rúmlega 13 kílóa af kókaíni með verulegum styrkleika. Ákærði flutti efnið til landsins frá Brussel í apríl á þessu ári. Héraðsdómur dæmdi ákærða í sex og hálfs árs fangelsi fyrir brotið. Ákærði hefur skýlaust játað sök og lýst einlægri iðrun fyrir dómi. Fyrir Landsrétti lagði verjandi ákærða áherslu á nokkur atriði. Í fyrsta lagi taldi hann að héraðsdómur hefði ekki tekið nægilegt tillit til aldurs ákærða. Í öðru lagi hélt hann því fram að ekki hefði verið litið nægilega til þess að ákærði hefði ekki komið að skipulagningu innflutningsins og að hann hefði eingöngu verið í hlutverki burðardýrs. Í þriðja lagi taldi verjandinn að refsingin væri ekki í samræmi við dómvenju í sambærilegum málum, og að hún væri of þung að mati hans. Að þessu virtu fór verjandi mannsins, Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður, fram á að refsing ákærða yrði verulega lækkuð. Niðurstaða Landsréttar var að refsing ákærða var færð niður um eitt og hálft ár – eða niður í 5 ár.
21. nóvember 2025
Í dag bárust ánægjuleg tíðindi frá Sjúkratryggingum Íslands, sem tengjast máli okkar skjólstæðings. Málið varðar meðferð á Landspítala þar sem talið var að meðferðin hefði ekki verið framkvæmd í samræmi við bestu fyrirmæli og reynslu á sviðinu. Ákveðið var að sýna hefði átt meiri aðgát, sérstaklega varðandi lyfjagjöf, sem leiddi til alvarlegrar hjartsláttartruflunar. Einnig var það mat Sjúkratrygginga Íslands að meðferðin hafi ekki verið fullnægjandi, þar sem gleymdist að fjarlægja aðskotahlut úr legu sjúklings á gjörgæslu yfir 12 klst. Í ljósi þessa var bótaskylda samþykkt vegna heilsutjóns sem tjónþoli varð fyrir. Við erum stolt af því að geta staðið við hlið skjólstæðinga okkar í þeim málum sem varða þeirra réttindi og velferð.
19. nóvember 2025
Héraðsdómur Reykjavíkur komst nýverið að niðurstöðu í máli sem snýr að umfangsmiklum ágreiningi milli fyrrverandi rekstraraðila veitingastaðar. Málið hefur vakið athygli vegna ásakana sem þar komu fram, meðal annars um þjófnað, fölsun undirskriftar og meiðyrði. DV greindi m.a. frá niðurstöðu dómsins í frétt þann 18. nóvember 2025. Niðurstaða dómstólsins Í dómnum voru nokkrir þættir teknir til sérstaks mats. Skjólstæðingur okkar fékk hluta af kröfum sínum viðurkenndar, en aðrir þættir málsins voru ekki taldir uppfylla kröfur að mati dómsins. Um er að ræða flókið mál þar sem bæði staðreyndir og túlkun á lagareglum eru umdeildar og hafa verið ítrekað ágreiningsefni milli aðila. Áfrýjun til skoðunar  Til skoðunar er að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar í því skyni að fá tilteknir þætti málsins metna af Landsrétti, s.s. mat á sönnunargögnum og túlkun á ummælum og tilefni þeirra.