Bændur og fæðuöryggi í breyttum heimi

Víða er ótryggt ástand bæði efnahagslega og hernaðarlega. Óstöðugleikinn vegna átaka bæði í Ísrael og Úkraínu hefur ýtt undir ákveðnar efnahagsþrengingar. Mörg ríki þar á meðal Bandaríkin hafa varað við þessu ástandi og einkum áhrif þess á efnahagsmál. Hafa sum ríki gripið til ráðstafana sem eiga að draga úr hversu háð þau eru öðrum ríkjum efnahagslega og í öryggismálum. Það má velta fyrir sér hversu mikið öryggi NATÓ aðild veitir en stríðið í Úkraínu sýndi að ekki var hægt að ganga að samheldninni vísri. Ef til vill flýtur lítið eyríki eins og Ísland sofandi að feigðarósi ef það telur öryggi sínu borgið í einni sæng með bandalagsríkjum NATÓ. Eflaust má benda á ýmis rök með og á móti en sem betur fer hefur aldrei reynt á þetta í sögu NATÓ.


Lítið örríki eins og Ísland getur sín lítils í heimi stórvelda þrátt fyrir að fyrrv. forseti lýðveldisins leiki sér að því á eftirlaunaaldri að telja okkur trú um að við séum mikils megnug í umhverfismálum heimsins og okkar ágæti forsætisráðherra telur að við höfum rödd í heimi stjórnmálanna þannig mark sé tekið á. Auðvitað getur þessa litla þjóð verið fyrirmynd en áhrif hennar á heimsmálin eru hverfandi þó atvinnustjórnmálamenn vilji telja okkur þegnum landsins trú um annað. Getuleysi stjórnmálamanna hér á landi felst í því að vera ekki nægilega framsýnir og hafa dug til að taka ákvarðanir sem miðað að því að tryggja velferð þjóðarinnar efnahagslega og öryggislega, einkum þegar efnahagshorfur í heiminum eru óstöðugar. Í því samhengi vegur þungt fæðuöryggi þessarar þjóðar.


Kjör íslensku bændastéttarinnar hafa hnignað mikið undanfarin ár og sá sem þessi orð skrifar hefur áhyggjur af framtíð hennar. Í reynd eru talsmenn íslensks landbúnaðar fáir og vanmáttugir. Stjórnmálamenn virðist litinn skilning hafa af ástandinu hjá íslenskum bændum og ef marka má umræðuna á Alþingi virðast þeir oft ekki sjá skóginn fyrir trjánum. Afar brýnt er að íslenskir stjórnmálamenn vakni og einbeiti sér að því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar í ótryggum heimi. Staða bænda á Íslandi er slæm og hefur versnað mikið að undanförnu. Lítið ber á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar eða stjórnmálamanna almennt við þessu ástandi sem er grafalvarlegt. Nýliðun í stétt bænda er ekki næg ef horft er til framtíðarinnar, fjölgun þjóðarinnar og aukins álags vegna sívaxandi straums ferðamanna til landsins. Fjölgun þjóðarinnar er staðreynd sem ber að horfa til en ljóst er eins og staðan er núna að það verður ekki hægt að halda í við þá þróun hvað landbúnað og fæðuframleiðslu varðar, verði ekki gripið til aðgerða. Horfur í efnahags- og stjórnmálum heimsins bæta heldur ekki úr skák.


Hagsmunasamtök kaupmanna tala fyrir auknum innflutningi á matvörum eins og það sé lausnin á vandanum. Staðreyndin er sú að íslenskur landbúnaður býr ekki við alla þá styrki og miðstýringu sem landbúnaður í Evrópu og jafnvel Bandaríkjunum býr við. Staðreynd málsins er sú að íslenskir bændur búa við verri skilyrði þegar kemur að ræktun, styrkjum, tollum og allri aðstoð í sínum rekstri en t.d. bændur innan Evrópusambandsins og jafnvel annars staðar. Allt tal um aukinn innflutning er til höfuðs íslenskum bændum sem geta ekki keppt við niðurgreidda landbúnaðarframleiðslu frá Evrópu. Það þjónar heldur ekki öryggi þessarar þjóðar, hvorki efnahagslega en að öðru leyti, að huga ekki vel að eigin fæðuöryggi með því að tryggja eigin framleiðslu.


Það er orðið tímabært að bændur fái hljómgrunn hjá ráðamönnum sem hafa ef eitthvað fjarlægst þá mikið. Matvælaframleiðendur eiga sér fáa talsmenn og þeir stjórnmálamenn sem nú eru á Alþingi virðast hafa litla þekkingu og skilning á stöðunni sem gengur ekki upp. Öryggi þjóðarinnar í fæðumálum er í uppnámi og í því ástandi sem nú er í heimi óstöðuleika er mikilvægt að byggt sé undir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Það sjá það allir sem vilja að til að íslenskur landbúnaður geti keppt við innflutning þá þurfi að auka við styrki og stuðning við íslenska bændur. Íslenskur landbúnaður er einstakur á heimsvísu þegar kemur að heilbrigði og gæðum til neytenda og því er til mikils að vinna að styðja betur við hann.



Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður

24. október 2025
Við upphaf sambúðar spáir fólk því miður lítið í það hvernig fer með fjármál þeirra ef til sambúðarslita kæmi, en í upphafi skal endinn skoða eins og máltækið segir. Það getur skipt sköpum að gengið sé rétt frá þessum hlutum strax í upphafi. Við fjárslit óvígðrar sambúðar gilda ekki sérstök lög eins og um hjónabönd, heldur er byggt á óskráðum meginreglum og dómaframkvæmd. Hafi sambúð varað lengur en tvö ár er hægt að krefjast opinberra skipta til fjárslita og gilda þá ákvæði laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. um þau fjárskipti. Meginreglan við fjárslit sambúðarfólks leggur áherslu á að líta beri á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga, þar sem hvor aðili tekur með sér sínar eignir og skuldir nema annað sé sannað. Þegar fólk er að hefja sambúð og kaupa sitt fyrsta sameiginlega húsnæði geta fjárframlög sem hvort fyrir sig kemur með í sambúðina verið mishá. Ekki er óalgengt að sambúðaraðilar láti þennan mismun endurspeglast í skráðum eignarhlut hvors í fasteigninni þannig að sá aðili sem kemur með meira fjármagn inn í sambúðina er skráður fyrir hærri eignarhlut í eigninni. Fasteignaveðlán sem tekin eru sameiginlega eru aftur á móti nær undantekningarlaust skráð til helminga. Nýlegur dómur Hæstaréttar sem féll 21. maí sl. í málinu nr. 22/2025 hefur skýrt nánar hvernig fara skuli með sameiginlegar fasteignir og skuldir sem á þeim hvíla, sérstaklega þegar eignarhlutir eru ólíkir en skuldabyrði jöfn. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að tryggja réttaröryggi og fyrirsjáanleika í fjármálum sambúðarfólks. Í dóminum var deilt um uppgjör fasteignar þar sem annar aðilinn átti 55% og hinn 45%, en báðir báru jafna ábyrgð á áhvílandi skuldum. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það væri rangt að draga skuldirnar í heild frá söluverðinu og skipta síðan hreinni eign á milli aðila. Í staðinn átti að skipta brúttó söluandvirði fasteignarinnar í hlutföllunum 55% og 45% áður en helmingshlutur hvors þeirra í áhvílandi skuldum eignarinnar væri dreginn frá hlut hvors um sig. Þessi niðurstaða hefur þau áhrif að þegar sambúðarfólk kaupir fasteign með ójöfnum eignarhlutum en tekur sameiginleg lán með jafnri ábyrgð, ber að nota þessa útreikningsaðferð. Þetta þýðir að sá aðili sem á minni eignarhlut en skuldar samt 50% af áhvílandi veðláni getur setið uppi með töluvert minna á milli handanna en ef hinni aðferðinni væri bætt, það er að segja að skipta hreinni eign eftir frádrátt skulda. Sem dæmi mætti nefna að aðili, sem skráður er fyrir 30% hlut í sameiginlegri fasteign en er 50% skuldari af sameiginlegu fasteignaláni, gæti lent í því við sambúðarlist að helmings hlutur hans í skuldinni éti upp allan eignarhlutinn, á meðan að hinn aðilinn, sem skráður er fyrir meiri eign en skuldar jafnmikið, fær þá hreina eign í sinn hlut. Til að verjast hugsanlegum ágreiningi við fjárslit óvígðrar sambúðar er fólki sem er að hefja sambúð ráðlagt að huga vel að fjármálum sínum frá upphafi. Til að tryggja skýrleika og réttaröryggi er afar brýnt fyrir fólk að ákveða, jafnvel formlega með sérstökum sambúðarsamningi, hvernig bæði eignum og skuldum eigi að vera skipt við möguleg sambúðarslit, í stað þess að skipta bara eignarhlutum eins og algengt er. Mikilvægt er að misjafnt eignarhlutfall endurspeglist líka í skuldahlutfalli sambúðaraðila. Höfundur er Hæstaréttarlögmaður Sævar Þór Jónsson.
17. október 2025
Sævar Þór og Partners hafa samið við fyrirtækið Jónsbók um aðgang að öflugum hugbúnaði þess sem íslenska fyrirtækið Raxiom hefur þróað og byggir á háþróaðri gervigreind. Jónsbók er heildstæð lausn sem veitir okkur aðgang að öllum helstu gagnagrunnum sem tengjast íslensku lagaumhverfi: lögum, reglugerðum, dómum, úrskurðum; íslenskum og erlendum réttarheimildum sem og öðru lagatengdu efni sem allt er uppfært reglulega.  Öll gögn hjá Jónsbók eru geymd dulkóðuð með öruggum aðgangsstýringum og eru ekki notuð til þróunar á gervigreind. Við hjá Sævari Þór og Partners erum himinlifandi yfir þessu samstarfi sem mun tryggja enn frekari gæðin í okkar vinnu, auka afköst og framlegð um leið og það verður bæði einfaldara og þægilegra að nálgast réttar upplýsingar.